Næsta lið sem við kynnum til leiks í Uppsveitadeild Flúðasveppa og Hmf Jökuls er lið LogoFlex sem er nýtt lið í deildinni.
Liðsfélagar eru dreifðir um Suðurland en koma saman í stuðið og stemninguna í Uppsveitadeildinni.
Birta Ingadóttir er vitleysingur af guðsnáð, en hún er vitleysingur með keppnisskap andskotans. Ef það er keppni þá ætlar hún að vinna hana! Birta er útskrifuð með B.Sc. í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum. Hún starfar við tamningar og þjálfun í Miðdal í Kjós. Uppáhaldsskyndibiti Birtu er Just wingin it og uppáhaldsdrykkur er íííískalt kók í dós.
Eva María Aradóttir er eini norðlendingurinn í liðinu, það var ekki pláss fyrir fleiri. Eva er útskrifuð með B.Sc. í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum. Hún starfar við tamningar á Litlalandi í Ásahreppi. Uppáhaldsskyndibiti eru brauðstangir á Skalla og uppáhaldsdrykkur er Nocco.
Guðný Dís Jónsdóttir er lambið í hópnum. Hún er nýlega komin með bílpróf og nýtur þess í botn. Hún stundar nám í FÁ og nýtir allar stundir sem hún er ekki í skólanum, eða rúntandi um á Land Cruiser, í hnakknum. Hún stundar sína hestamennsku í Hestamannafélaginu Spretti í Kópavogi og Garðabæ. Ekki nóg með það þá er hún í landsliðshópnum! Guðný Dís er kannski ekki komin með háskólagráðu frá Hólum, en það gerist þegar hún hefur aldur til. Guðný er ekki með neinn kjörskyndibita, sennilega er það ástæðan fyrir því að hún er landsliðsíþróttamaður en engin önnur í liðnu getur sagt það sama.
Guðrún Margrét Valsteinsdóttir er með tímabjartsýni aldarinnar og telur að hún geti gert allt á 15 mínútum, sama hvað það er. Guðrún er útskrifuð með B.Sc. í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum. Hún starfar við tamningar, þjálfun og reiðkennslu, með bækistöð í Hestamannafélaginu Spretti í Kópavogi. Uppáhaldsskyndibiti Guðrúnar er eitthvað með bbq sósu á KFC – en akkúrat núna er kjúklingaþrennu tilboðið að gera gott mót. Uppáhaldsdrykkur Guðrúnar er Red bull. Guðrún er liðstjóri LogoFlex.
Ingunn Birna Ingólfsdóttir er aldursforseti hópsins, en ekki láta það blekkja ykkur, aldur er nefninlega bara tala. Ingunn er útskrifuð með B.Sc. í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum. Hún starfar sem tamningamaður og reiðkennari í Mosfellsbæ. Uppáhaldsskyndibiti Ingunnar er Blackbox pizza og köld kók í dós.