Uppsveitadeildin
Skráning í Uppsveitadeild 2024 hefst 10 nóvember og stendur til 15 des 2023.
Dagskrá vetrarins lítur svona út :
9 febrúar – Fjórgangur föstudagur
8 mars – Fimmgangur föstudagur
11 apríl – Skeið & Tölt fimmtudagur
Óskum við eftir skráningum frá fullmönnuðum liðum. Ekki verður tekið við skráningum frá stökum knöpum. Við hvetjum þá sem hafa áhuga á að taka þátt að tala sig saman
Skráningargjald fyrir hvert lið er 120.000 + vsk
Vinsamlegast sendið inn skráningar á uppsveitadeild@hmfjokull.is – fram þarf að koma nafn liðs, nöfn á öllum knöpum og kennitölur.
Skráningargjaldið þarf að greiðast í síðasta lagi 10 dögum fyrir fyrsta mót.
Reglur Uppsveitadeildar Reiðhallarinnar á Flúðum.
- Stjórn Reiðhallarinnar skipar Framkvæmdanefnd Uppsveitadeildarinnar. Starfstími Framkvæmdanefndarinnar er frá 1. september til 31. maí. Framkvæmdanefnd skal skipuð eftirtöldum:
Þrír fulltrúar tilnefndir af Hestamannafélaginu Jökli.
Tveir fulltrúar tilnefndir af stjórn Reiðhallarinnar.
Hlutverk framkvæmdanefndar Uppsveitadeildarinnar er að skipuleggja og sjá til þess að Uppsveitadeildin sé haldin með sóma í Reiðhöllinni á Flúðum á fyrsta ársþriðjungi ár hvert. Meðal verkefna Framkvæmdanefndarinnar er að sjá um skráningar á mótin, manna öll störf sem þarf á mótin, afla verðlauna og sjá um kynningu og auglýsingar á hvert mót fyrir sig.
Allar ákvarðanir varðandi fjárhag skulu teknar í samráði við gjaldkera stjórnar Reiðhallarinnar. Framkvæmdanefndin getur ekki tekið fjárskuldbindandi ákvarðanir fyrir hönd Reiðhallarinnar.
- Stjórn Reiðhallarinnar ber ábyrgð á framkvæmd Uppsveitadeildarinnar. Hún sér til þess að gólf hússins sé í keppnishæfu ástandi á meðan á Uppsveitadeildinni stendur. Hún ákvarðar upphæð keppnisgjalds og aðgangseyris, sér um innheimtu og stýrir veitingasölu. Stjórn ber ábyrgð á því að semja við aðalstyrktaraðila mótsins
- Uppsveitadeildin er keppni í hestaíþróttum sem fram fer í Reiðhöllinni að Flúðum Lágmarksaldur keppenda miðast við ungmennaflokk eins og hann er skýrður í reglum LH.
- Framkvæmdanefnd Uppsveitadeildar auglýsir eftir umsóknum liða til þátttöku í Uppsveitadeildinni fyrir 10 nóvember ár hvert. Fyrstu sjö liðin sem skrá sig innan skráningarfrests öðlast keppnisrétt í deildinni. Skrá skal fullmannað lið ekki hver knapi fyrir sig.
- Keppnisgreinar Uppsveitadeildarinnar eru fjórar haldnar á þremur mótum. Á fyrsta móti er keppt í fjórgangi V1. Á öðru móti er keppt í fimmgangi F1. Á þriðja móti er keppt í tölti T1 og flugskeiði P2. Keppt er eftir FIPO reglum, að teknu tilliti til vallarstærðar. Mót skulu haldin með þriggja til fjögurra vikna millibili.
- Dómarar eru þrír. Allir með réttindi sem hestaíþróttadómarar og aðilar að Hestaíþróttadómarafélagi Íslands.
- Keppnislið Uppsveitadeildarinnar eru sjö. Knapar keppnisliða skulu vera fimm.
Í hverri keppnisgrein keppa þrír knapar frá hverju liði, samtals 21 keppandi.
- Hvert lið skal skipa sér liðsstjóra. Hann er tengiliður liðsins við Framkvæmdanefnd Uppsveitadeildarinnar og ber ábyrgð á liði sínu. Liðsstjórinn sér um að skila inn skráningum á tilsettum tíma.
Keppnisgjald skal greitt eigi síðar 10 dögum fyrir fyrsta mót. Liðsstjóri má vera knapi í liði sínu.
- Forfallist knapi fyrir keppni má kalla inn varaknapa. Varaknapi kemur fyrstur í braut í keppni. Sama gildir ef grípa þarf inn varahest. Tilkynna skal Framkvæmdanefnd Uppsveitadeildarinnar um forföll í síðasta lagi á hádegi á keppnisdegi.
- Eftir að Uppsveitadeildin er hafin er óheimilt að knapar skipti um lið.
- Knapar safna stigum eftir árangri í hverri keppni. Efsta sæti gefur 21 stig, annað sætið 20 o.s.frv. Stig eru gefin fyrir allar gildar sýningar. Keppnislið safna stigum eftir árangri knapa sinna. Ógild sýning í forkeppni skilar ekki stigum. Ef ekki næst tími í flugskeiði fást engin stig.
- Knapar og hross skulu ávalt vera snyrtilega til fara og keppnislið skulu keppa í samstæðum jökkum eða peysum.
- Í keppni skal fylgja reglum skv. 8. kafla Laga og reglugerða um keppni á vegum LH. Frávik sem eru leyfð vegna aðstæðna eru eftirfarandi:
Knapa er heimilt að ríða einn til einn og hálfan hring áður en hann hefur keppni. Sami hestur má keppa í öllum greinum.
Riðin eru A og B úrslit. Tíu knapar komast í úrslit, Fimm í A úrslit og fimm í B úrslit. Sigurvegari B úrslita færist ekki upp í A úrslit. Séu fleiri en einn knapi jafnir
í fimmta eða tíunda sæti, taka þeir allir sæti í úrslitum.
Í fimmgangi F1 skal sýna tvo skeiðspretti í forkeppni og þrjá í úrslitakeppni.
Ekki er dæmt fyrir niðurtöku eða niðurhægingu, heldur einungis fyrir skeiðgæði.
Í flugskeiði eru riðnir 3 sprettir. Tímar ráða úrslitum.
- Sýni knapi óíþróttamannslega reið eða háttsemi getur mótsstjóri vikið honum úr keppni.
Samþykkt á fundi framkvæmdanefndar 09.11.2023.